Lýðræði – milliliðalaust!
12.1.2008 | 20:09
Ég hef oft talað fyrir því, þegar lýðræði ber á góma, að lýðræði sé í raun blekking. Allir vita að það þarf mikið fjármagn til að komast til þings. Það þarf líka ýmislegt annað eins og veru í stjórnmálaflokki, tengsl og velvild ákveðinna afla innan samfélagsins og ef vel á að vera, eitt háskólapróf helst í lögfræðum. Við sjáum undarlega oft að seta á Alþingi, meira að segja seta í ríkisstjórn, virðist ganga í erfðir. Þetta er allt gott og blessað þegar við erum að tala um kjör á foringjum, þeim sem leiða skulu vagninn, þeim sem hæfileikaríkari eru en við flest hin; en eru alþingismenn foringjar? Hvers vegna kjósum við alþingi?
Eins og alltaf verðum við að grípa til sögunnar þegar við ætlum að átta okkur á því hvar við erum; förum fljótlega yfir sögu: Þegar landnámsmenn voru búnir að skipta með sér Íslandi og koma sér fyrir þá fundu með það fljótlega að nauðsynlegt var að koma saman og sameinast um lög og reglur til að allt færi ekki hér í bál og brand (reyndar fór allt í bál og brand engu að síður, en þingsamkomur urðu til að sætta menn og bera klæði á vopn). Allavega var öllum frjálsum karlmönnum sem fasteign áttu heimilt að ríða til þings og bera þar upp mál. Þinghaldið var þannig bæði löggjafarsamkunda og dómsamkunda. Þar sammæltust menn um lög og ef ágreiningur varð þá réð meirihluti. Menn voru svo dæmdir fyrir brot gegn lögunum og þar var einnig skorið úr um ágreiningsmál manna í millum. Það sem þetta fyrirkomulag á skylt með öðru lýðræði fornu, hinu gríska, er að lýðræðið byggðist á beinni þátttöku þegnanna. Menn komu saman og tóku málefnalega afstöðu til atriða er snertu samfélagið milliliðalaust!
Þegar svo lýðræðið hefur legið í dvala í aldir í Evrópu, en sívaxandi millistétt fer að þrýsta á aðalsstéttirnar um aukna þátttöku í samfélagslegum ákvörðunum, vaknar hugmyndin um fulltrúalýðræði. Konungar við hirðir Evrópu neyðast til að leyfa tilvist nokkurskonar álitsþinga til að friðþægja hina sístækkandi millistétt; millistéttin á sér s.s. fulltrúa við hirðina. Seinna þegar mörgum konungum og drottningum hefur verið steypt og lýðveldum komið á þá stendur eftir sú hugmynd að ákveðið þing komi saman sem ráði ríkinu. Þetta þing samanstandi af kosnum fulltrúum sem kjörbærir menn kjósi með reglulegu millibili. Smám saman þróast svo hugmyndin um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þ.e. einn armur þingsins á að setja lög en annar á að sjá til þess lögunum sé framfylgt. Dómsvaldið var aðskilið áður og er hvergi mér vitanlega nema í Bandaríkjunum lýðræðislega kjörið. Svona hefur lýðræðið verið um allar jarðið síðan á átjándu öldinni. Þegar svo þjóðríkin stækka og sameinast í bandalög þá höfum við fjárlægst möguleikann á að sjá milliliðalaust lýðræði í líkingu við það sem forfeður okkar bjuggu við og álitu sjálfsagt.
Nú horfir hins vegar til betri vegar þökk sé tækninni. Nú er tæknilega ekkert því til fyrirstöðu að koma á milliliðalausu lýðræði, það gera byltingarkenndar framfarir í fjölmiðlun og samskiptum. Nú sjáum við möguleika á að kjósa ríkisstjórn til að fara með framkvæmdarvaldið en sleppa að kjósa fulltrúa til Alþingis. Þess í stað sjáum við nú aftur fram á að þegnarnir geti farið að taka þátt í ákvarðanatökum beint, líkt og gert var, og sjálfsagt þótti, til forna. Leifið mér að draga upp fyrir ykkur áhugaverða mynd.
Hugsið ykkur að á fyrirframákveðnum tímum mælir einhver ráðherrann (ríkisstjórinn?) fyrir frumvarpi til laga og frumvarpinu er sjónvarpað beint á vegum Alþingis. Þessi framsaga er svo aðgengileg öllum þegnum til að taka afstöðu til á veraldarvefnum. Á vefnum fer svo fram umræða um frumvarpið þar sem allir geta tjáð sig um málið. Að lokum veita síðan þegnarnir þessu frumvarpi atkvæði sitt til samþykkis eða synjunar; ekkert tal um ofríki flokka, ekkert tal um þjóðaratkvæðagreiðslur ekkert tal um ofríki lítilla flokka sem ráði miklu meira en atkvæðamagn bakvið segir til um (ég ætla ekki að fara hér út í tæknilega útlistun á því hvernig þetta gæti orðið en fullyrði að ef að verslun er möguleg á vefnum þá eru kosningar það sömuleiðis). Hin almenni þegn getur svo, rétt eins og almennur þingmaður getur í dag, barist fyrir því að koma eigin málum á framfæri; hægt er að hugsa sér að fái hann stuðning, segjum, 5.000 annarra þegna við tillögu sína skuli ríkisstjórnin bera hana fram sem frumvarp til laga fyrir alþjóð til að taka afstöðu til í almennri atkvæðagreiðslu til meirihlutasamþykkis, eða synjunar. Auðvitað eru mörg mál sem alger óþarfi er að kjósa um og eru þau ákvörðuð með reglugerðum rétt eins og gert er í dag en þið sjáið að ástæða þess að vera að kjósa einhvern fulltrúa á þing til að greiða atvæði fyrir mig og þig er alger óþarfi í dag. Auðvitað á í raunverulegu lýðræði það að vera fullkominn réttur allra þegnanna að bera upp mál sem þeir telja samfélaginu til bóta, milliliðalaust fyrir meðborgarana að taka afstöðu til. Það á ekki og getur ekki verið, eitthvert einkamál fárra sem komið hafa sér fyrir í löngu úreltu flokkakerfi, í skjóli tengsla og fjármagns, að bera fram mál sem koma okkur öllum við.
Þetta myndi svo, með tíð og tíma, ýta undir þroska einstaklingana, og þar með samfélagsins í heild. Í gegn um samræðu og rökræðu væri fólki kippt út úr þeirri firringu og áhugaleysi sem það lifir við í dag. Fólk er dofið af áhugaleysi um umhverfi sitt, einmitt vegna þess að því finnst það ekkert hafa að segja og engu ráða um það sem gerist í þess nánasta umhverfi, hvað þá heiminum almennt. Við sjáum þetta í lítilli kosningaþátttöku og viðhorfinu: "Hvers vegna að kjósa - það er sami rassinn undir þessu öllu - hverju breytir það svo sem?".
Ef að við myndum ýta þessu úr vör og virkja þannig einstaklinginn spái ég, að við sæjum fram á gullöld svipaða og Grikkir upplifðu til forna, með hátindum mannlegrar hugsunar og sköpunargáfu í stað þeirrar úrkynjunar og doða sem víða blasir við í dag og birtist m.a. í sjálfsmorðum, fíkniefnum, barnaníði, taumlausri græðgi, almennri eymd og eyðileggingu, doða og hatri.
Þið sjáið að þetta er fullkomlega framkvæmanlegt, bæði tæknilega sem og félagslega og ekkert annað en bein þátttaka þegnanna í ákvarðanatökum og lagasetningum getur kallast lýðræði. Það að fá að kjósa misvitra einstaklinga (flokka), til að taka fyrir sig ákvarðanir næstu fjögur árin, er ekki lýðræði í mínum huga, fyrir utan það að ekki er einu sinni hægt að kjósa einstaklinga heldur einungis flokka.
Ég hvet ykkur nú góðu Íslendingar, sameinumst um að koma hér á raunverulegu lýðræði, þar sem að ég og þú getum haft allt um það að segja hvernig þjóðfélaginu er stjórnað og við hvaða lög við búum við. Hættum að sitja hjá og kvarta yfir hinu fáránlega Alþingi, krefjumst þess að fá að taka þátt í ákvarðanatökum sem snerta alla í þessu þjóðfélagi. Það er vel hægt að koma hér á beinu lýðræði og það er eina formið sem raunverulega getur kallast lýðræði.
Kæru Íslendingar: Komum á lýðræði á Íslandi líkt og var á Íslandi til forna!
Lifið heil og látið í ykkur heyra!
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.1.2008 kl. 21:45 | Facebook
Athugasemdir
Mér lýst vel á þessar hugmyndir.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.1.2008 kl. 02:26
Frábært, hjálpaðu mér endilega að dreifa þeim sem víðast - hver veit við gætum breytt einhverju. Allavega gerist ekkert ef við gerum ekki neitt.
Kveðja
Þór Ludwig Stiefel TORA, 15.1.2008 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.