Fiskistofnarnir við íslandsmið ekki lengur sameign íslensku þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni – athugið það!
11.1.2008 | 23:20
Þá langar mig aðeins að tjá mig um kvótamálin. Nú er verið að tala um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á íslenska kvótakerfinu og það er eitthvað í loftinu sem segir mér að nú sé lag að fylgja eftir.
Í fyrsta lagi þá var ég, á sínum tíma, mjög svo samþykkur því að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi, því að klárlega var um mikla sóun og ofveiði að ræða. Ég var hins vegar aldrei á því, frekar en nokkur annar ég veit, að koma hér á kerfi sem veitti sumum einhvern forréttindaaðgang að auðlind sem, þangað til, var sögð tilheyra okkur öllum.
Það er, sem sagt, verið að tala um tvö kerfi, eða í það minnsta, tvíbent kerfi; annarsvegar kerfi sem snýr að stjórnun á fiskveiðum og hins vegar, kerfi er lítur að eignarétti. Þangað til kvótakerfið var sett á átti sá fiskinn er fangaði hann og landaði, en eftir að kerfinu var komið á myndaðist eignaréttur á fiskinum sem synti í sjónum og upp spannst það fáránlega fyrirkomulag að sjómenn (þeir sem hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum) gátu nú leigt[?] fiskinn í sjónum (og við sitjum uppi með einskonar leiguliðafyrirkomulag líkt og þekktist á miðöldum). Áður en lengra er haldið ætla ég stuttlega að staldra við og kryfja þetta kerfi lítið eitt.
Kerfið heitir kvótakerfi og byggir á því að sett er fram heildarmagn sem veiða má upp úr sjó og því síðan skipt á milli manna og sá kvóti er hver fær kallaður veiðiheimild. Til að mega veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að hafa yfir veiðiheimild að ráða, annars er um lögbrot að ræða. Þegar kvótakerfinu var komið á, var miðað við undanfarin 3 fiskveiðiár (sept-sept) og gefinn út kvóti til handa viðkomandi útgerð (gefinn út kvóti) miðað við það sem veitt hafði verið og reiknað sem hlutfall af heildarafla.
Eins og er með allar takmarkaðar auðlindir er um verðmæti að ræða í þessum gefna kvóta og eins og með öll verðmæti má veðsetja þessi verðmæti. Einnig má vel selja þessi verðmæti, leigja eða gera hvað annað sem eigenda þessar verðmæta sýnist. Það er til að mynda mögulegt að veiða ekki (eitthvað sem áhugavert væri að útfæra varðandi friðun/hvíld/uppbyggingu á fiskistofnunum; áhugavert væri t.d. að hugsa sér að ríkið keypti einfaldlega kvóta og frysti þegar friða þyrfti stofnanna og setti síðan á markað þegar vísindamenn álitu að hægt væri að auka ásókn í stofninn).
Kvótakerfið hefur alla tíð verið mikið gagnrýnt og sýnist mér að gagnrýnin sé í aðalatriðum varðandi þrjú atriði og ætla ég að fara yfir þau hér:
1. Gjafakvóti.
Ein aðal gagnrýnin á kvótakerfið að um gjafakvóta var að ræða í upphafi; gjöf sem var afar verðmæt og höndlast nú með á markaði fyrir milljarða króna.
2. Eignarhald.
Önnur megin gagnrýni fjallar um að eignarhald á sameiginlegri auðlind og ekki síst eignarhald á óveiddum fisk í sjónum. Þetta eignarhald hafi haft ófyrirsjáanlega byggðaröskun í för með sér þar sem hentisala einstaklings, eða fyrirtækis, á kvóta kippi atvinnugrundvelli heils byggðarlags burtu í einni andrá.
3. Fiskveiðistjórnun.
Þriðja gagnrýnin, sem oft heyrist, bendir svo á að sem fiskveiðistjórnunarkerfi sé kvótakerfið ekki að virka, sem var jú ástæða þess að kerfinu var komið á í upphafi. Þessi gagnrýni er byggð á veikustu rökunum þar sem, til að fiskveiðistjórnunarmarkmið kerfisins náist, þarf að fara eftir aflamagnstillögum vísindamanna en það hefur nær undantekningarlaust ekki verið gert; sömuleiðis verður tillögustjórnun aldrei betri en það gangamagn sem sett er inn í tillöguhönnunarmódelið og til að fá sem besta yfirsýn yfir það hvað veiða má, þarf að leggja mikið fé og mannkraft í rannsóknir en þar hefur nokkuð skort á.
Og er þá komið að meginefni þessa pistils, sem sagt gagnrýni á kvótakerfið og hvað sé til bóta.
Ég er nú, eins og áður, á því að nauðsynlegt sé að hefta aðgang að fiskistofnunum og að nauðsynlegt sé að vernda fiskistofna frá atgangi manna. Til eru tvær þekktar meginleiðir til aðgangsstjórnunar og þær eru kvótakerfi og sóknarkerfi. Færeyingar leggja meiri áherslu á sóknardagakerfi sem byggir á því að þú mátt veiða eins mikið og þú finnur af fiski á ákveðnum dögum. Þetta er í raun réttlátara kerfi en það sem við búum við þar sem sama grundvallarmálið varðandi eignarétt er viðhaldið og var áður en fiskveiðistjórnun var komið á, þ.e. sá á fiskinn sem veitt hefur hann og landað; þangað til á hann sig sjálfur eða við öll. Gallinn við þetta kerfi er sá að ekki er verið að vinna út frá ákveðnum aflatölum. Segjum t.d. að fiskifræðingar væru sammála um að veiða mætti 300 þúsund tonn. Þá er ósvarað hversu marga daga þarf flotinn til að ná þessum tonnum og hversu stór þarf flotinn að vera, hætt er á að ekki náist að veiða allan aflann sem óhætt er að veiða. Einnig er það innbyggður galli í kerfinu að mónitoring og afstemmning á kerfinu hlýtur alltaf að koma eftir á og sé aflanum náð áður en árið er liðið er ekki stoppað fyrr en veitt hefur verið umfram heimildir. Þrátt fyrir þessa annmarka, sem og aðra sem ekki hefur verið getið hér, er þetta kerfi mun réttlátara en kvótakerfið og hefur í raun verið tekið hér upp varðandi minnstu bátana. Það þykir, hins vegar, ekki henta þegar að meginaflastjórnun kemur.
Ég sagði áður að aðalgagnrýnin á kvótakerfið íslenska væri ekki varðandi fiskveiðistjórnunina heldur yfirráðaréttinn. Gefum okkur nú að fiskistofa fái sem mest tækifæri til að gera sem fullkomnust módel þannig að aflatillögur hennar séu hvað næst því sem er raunhæft og sannarlega gagnlegt til viðhalds fiskistofnunum og gefum okkur það einnig að stjórnamálamenn fari eftir þessum sömu tillögum, þá sé ég ekkert að sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu og held í raun að kvótaúthlutun sé hagkvæmasta og besta leiðin til þess að vernda stofnana og stuðla að sjálfbærri þróun í fiskveiðum. Þá stendur eftir hin hliðin á málinu, sem sé sú hlið er snýr að eignarhaldinu.
Fyrsti liður gagnrýninnar var að um gjafarkvóta hafi verið að ræða. En hér er einnig falin lausnin á því hvernig hægt er að laga kerfið. Til að ná sátt um kerfið þarf klárlega að breyta því þannig að fiskveiðistjórnunarmarkmiðin náist fram en eignahaldsmyndunin hverfi. Þar sem um gjafakvóta var að ræða í upphafi er ekkert því til fyrirstöðu að taka allan kvóta til baka til ríkisins og má þá einu gilda hvað gerst hefur varðandi verslun með kvóta á markaði; þar munu sumir hafa tapað og aðrið grætt eins og gengur þegar málið verður gert upp. Það þarf því að innkalla allan kvóta til ríkisins og þurrka þar með út gamla kerfið til að byrja upp á nýtt. Því næst er að úthluta aflaheimildum upp á nýtt en að þessu sinni þarf að fara að æðstu lögum þessa lands, sjálfri stjórnarskránni en ekki brjóta gegn henni og breyta síðan í skugga nætur og skjóli annarra mála (það er búið að fjarlægja þá grein úr stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að fiskistofnarnir á íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar athugið það en þessi grein var inni þegar kvótakerfinu var komið á; kannast einhver við að hafa kosið um það í almennum kosningum að afnema þessa grein sem er þó grundvallarskilyrði fyrir breytingum á stjórnarskránni). Í nýju kerfi þurfum við að binda aflaheimildir við staði, ekki fyrirtæki og enn síður við fólk. Við höfum snefil af þessu þegar kemur að byggðakvótum en þar sem kerfið hefur nú í sér svo gífurlega mikil eignarréttindi og hagsmuni aðila sem mikil ítök hafa innan stjórnsýslunnar þá er nánast alltaf litið fram hjá þessari lausn þegar litið er til heildarlausna.
Ég er að leggja það til að öllum úthafsaflaheimildum sé úthlutað til landshluta ekki fyrirtækja og enn síður til einstaklinga.
Þannig er það sveitarstjórna að úthluta aflaheimildum sem falla landsfjórðungnum í skaut. Hvaða útgerð sem skráð er með lögheimili í viðkomandi fjórðungi getur boðið í hlutinn og hæstbjóðandi fær að veiða aflann og hagnast á honum. Skilyrðið er að útgerðin sé skráð í fjórðungnum og að aflanum sé landað í fjórðungnum. Þetta leysir margt af því sem nú er verið að fást við eins og óstöðugleika byggðarlaga vegna þess að kvóti er seldur úr byggðarlaginu og vinnsla og löndun hverfur annað. Sömuleiðis er þetta tekjuöflun fyrir sveitarfélagið þar sem kvótinn er boðinn upp árlega og tryggt er að opinber gjöld af atvinnustarfseminni sem skapast af fiskveiðunum skila sér heim í hérað. Þetta þarf á engan hátt að þýða að þau fyrirtæki sem í dag eru framarlega í veiðum og vinnslu missi spón úr aski sínum, þau bjóða einfaldlega eins og aðrir í þann kvóta sem í boði er. Það sem myndi breytast er það að við hefðum, að lágmarki fjögur stór fiskvinnslufyrirtæki þar sem þau myndu byggjast upp í kring um kvótana sem landsfjórðungarnir hefðu yfir að ráða; við fengju í raun aftur fyrirtæki sem væru staðbundin og trú sinni heimabyggð í stað þess að hafa fyrirtæki sem starfa allstaðar og hvergi og eru ekki trú gagnvart neinum nema eigendum sínum. Sömuleiðis myndum við losna við sníkjudýrin sem lagst hafa upp á vinnandi fólk og fyrirtæki í sjávarúrveginum með því að lifa á því að leigja til þeirra kvóta eitthvað sem er óforskammarlegt og nóg í sjálfu sér til að afnema núverandi kerfi.
Síðan myndum við hafa sóknardagakerfi fyrir smærri báta og útgerðir sem væri eins nálægt því og var fyrir daga stjórnunarkerfisins og byggði á því einfalda lögmáli að allir hefðu rétt á því að sækja sjóinn í ákveðna daga á ári. Augljóslega yrðu vönustu og bestu sjómennirnir þeir sem mest bæru úr býtum og þar með þeir sem gætu gert sér lifibrauð af þessu en aðrir gætu samt sem áður stundað sjóinn engum væri það bannað. Sóknardagar yrðu síðan endurskoðaðir með tilliti til afla síðasta árs.
Ég vona að þessi stutti pistill hafi varpað inn hugmyndum hjá fólki um að hægt sé að hafa kvótakerfi sem vinnur að því að vernda fiskistofnana og á sama tíma sé réttlátt og tryggi sameiginlegan aðgang íslendinga að auðlindinni sem er fiskurinn er hrygnir í kringum landið.
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.