Um útlendinga

Ég ætla að viðurkenna það, hér og nú, að ég get verið afskaplega þjóðernissinnaður, sérstaklega þegar kemur að afbrotaskríl, af erlendu bergi brotnu, sem athafnar sig hér á landi. Það er mín tilfinning, og ég segi og skrifa tilfinning, að aukin harka sé að færast í undirheimana á Íslandi og að stórum hluta til sé það vegna útlendinga og þá aðallega austur-Evrópumanna.

Þó svo vart sé hægt að tala um undirheima, þegar ekið er á fólk með dauðalvarlegum afleiðingum, stungið af og fólk fengið til að ljúga upp fjarvistasönnun, þá sýnist mér að slík dæmi bendi til þess að fólk, sem svona geri,i beri sáralitla virðingu fyrir samfélaginu og því fólki sem það byggir. Flestir vita að austur-Evrópumenn ráða mest öllum eiturlyfjamarkaðnum hér á landi og nýleg frétt í Fréttablaðinu fullyrðir að, merkja megi aukið áræði þegar kemur að smygli eiturlyfja til landsins. Í sama blaði, sama dags, segir að aldrei hafi verið gert upptækt jafn mikið magn kókaíns en á því ári sem nú er að líða.

Við heyrum af litháum sem dæmdir eru fyrir stórfelldan búðaþjófnað (þjófnaður er stærsti þáttur rýrnunar í smásöluverslunum og þessi rýrnun er að sjálfsögðu sett inn í vöruverðið sem ég og þú borga). Þessir litháar fengu síðan væga dóma og stungu af af landi brott um leið og tækifæri gafst án, þess að afplána dóma. Bótakröfum verslananna var svo vísað frá dómi – hvaða skilaboð er hér verið að senda?

Ég las um daginn frétt um að erlendir ríkisborgarar fengu ekki lengur að versla á raðgreiðslum kreditkorta, vegna fjölda dæma um að þeir stæðu ekki í skilum, heldur hyrfu af landi brott eftir að hafa keypt fyrir stórar upphæðir. Sögur ganga í samfélaginu um nauðganir og ofbeldi sem tengjast austur-Evrópumönnum. Nýverið var sagt frá því í fréttum að maður hafi verið handtekinn, ofurölvaður, við eignaspjöll á Hverfisgötunni í Reykjavík á Þorláksmessu. Maður þessi hafi svo kinnbeinsbrotið lögreglumann, er hann varðist handtöku; ofbeldismaðurinn reyndist vera af austurevrópsku bergi brotinn. Það er svo áberandi í fréttaumfjöllun að reynt er að taka það ekki fram hverrar þjóðar ofbeldismenn, innbrotsþjófar og eignaspellvirkjar séu; væntanlega til að skapa ekki úlfúð milli aðfluttra og okkar sem hér eru fyrir. Stutt leit á vefnum gefur þó fjöldann allan af niðurstöðum, sem renna stoðum undir að víða er pottur brotinn þegar kemur að austur Evrópubúum búsettum hér á landi. Hér eru bara nokkur nýleg dæmi úr fréttavefjum:


Víkurfréttir | 25. des. 2007 00:00

Rússi gerði fimm lögreglubíla óstarfhæfa


mbl.is/Innlent | 21. des. 2007 00:00

Tveir Litháar ákærðir fyrir nauðgun


Vísir, 14. nóv. 2007 16:44

Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald í nauðgunarmáli

Hæstiréttur staðfesti í dag að tveir Litháar sem grunaðir eru um að hafa nauðgað konu í í húsasundi ...


mbl.is/Innlent | 22. nóv. 2007 00:00

Fíkniefnabrotum fjölgaði um 25% á milli ára


Allt í lagi, höfum eitt á hreinu; ég er ekki að segja að pólverjar, litháar, eða erlendir ríkisborgarar almennt, séu eitthvað verra fólk eða hneigist almennt til afbrota. Það sem ég er að segja er að það sé lágmarkskrafa að menn brjóti ekki af sér ætli þeir sér að búa hér. Geri menn það þá finnst mér að refsa eigi harkalega fyrir það, senda menn úr landi og setja í endurkomubann; og þá meina ég SENDA MENN ÚR LANDI! Ég er ekki sá eini sem skil ekki þessa linkind gagnvart Litháanum sem kom hingað til lands eftir að hafa afplánað hluta dóms, í alvarlegu líkfundar og fíkniefnamáli, í trássi við endurkomubann, með amfetamín á sér, augljóslega ætluð til sölu. Ég segi: við eigum nóg með okkar lögbrjóta, nauðgara, ofbeldismenn og þjófa – við þurfum ekki að flytja slíkt pakk inn. Svo er það þetta með fangelsi. Fælingarmáttur íslenskra fangelsa er nánast enginn. Ég fullyrði að þar hafi menn það tiltölulega gott; menn fá frítt að eta, frítt húsaskjól, geta stundað tómstundir og líkamsrækt án þess að hafa áhyggjur af því að mæta til vinnu. Ef að menn er þreyttir, þá sofa menn út og ef að veður eru vond, þá hanga menn inni – þetta er betra en margur frjáls maðurinn býr við. Þegar svo litið er til fangelsa austur Evrópu, þá sér það hver sá er vill, að það að vera dæmdur til fangelsisvistar á Íslandi, er hreint ekki svo slæmt. Tökum svo inn í dæmið að ef þú ert lithái sem getur keypt amfetamín, á nokkur hundruð krónur grammið í Litháen og selt á Íslandi fyrir mörg þúsund, þá er sá fórnarkostnaður, sem hugsanleg fangavist í íslensku fangelsi er, hreint ekki svo óásættanleg hugmynd.

Mér gremst það einfaldlega, að menn sjái gróðavon í því að koma til Íslands, í glæpsamlegum tilgangi en hræðist það ekki að verða gripnir. Hvort sem við erum að tala um aukningu í nauðgunum eða ekki, hvort sem við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi, eða ekki, þá erum við hér að tala um fórnarlömb. Ungmenni verða fórnarlömb fíkniefnasala og konum er nauðgað, eignaspjöll unnin og líkamsmeiðingar gerðar. Sé um að ræða erlenda ríkisborgara, eða ekki, þá skal refsað harkalega fyrir þetta; sé hins vegar um að ræða erlenda ríkisborgara, þá geri ég þá kröfu að, brot gegn hegningarlöggjöfinni, kalli á útskúfun úr íslensku samfélagi, til frambúðar. Það er lágmarkskrafa af þeim sem hér vilja búa og starfa, að þeir fari að íslenskum lögum. Geri menn það ekki, þá hafi þeir þar með fyrirgert rétti til að búa hér og starfa. Það þarf að senda skýr skilaboð til aðfluttra: “Brjótir þú gegn hegningarlöggjöfinni, er þér refsað harkalega og þú útskúfaður frá Íslandi, til frambúðar.”

Mér finnst að við þurfum að endurskoða allt varðandi atvinnu- og dvalarleyfi hér á Íslandi. Samningur okkar við Evrópusambandið ætlar að hafa þær alvarlegu aukaverkanir sem margir bentu á á sínum tíma. Ég sé ekkert að því að fólki sé gert að framvísa hér sakavottorði og að íslenskum stjórnvöldum sé gert kleift að útiloka að glæpamenn setjist hér að. Hvaða vit er í því að dæmdir kónar geti komið hér með hreinan skjöld og athafnað sig hér í friði með eiturlyfjasölu, mannsal, ofbeldi og annað fyrirlitlegt? Ég er að fá upp í kok af pólitískri rétthugsun og fáránlegu hugsjóna-frjálslyndi sem orsakar það að líf okkar allra er verra en það þyrfti að vera.

Bjóðum fólki að setjast hér að, sé vinnu fyrir það að hafa, en fyrirmunum okkur að fá hingað til lands glæpalýð sem enga virðingu hefur fyrir íslensku samfélagi; sem ekki ætlar sér að vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt og hefur enga ætlan eða vilja til að aðlagast. Sjáum til þess að þeir sem hingað flytjist geti aðlagast íslensku samfélagi og læri að tjá sig á íslenskri tungu, látum hina fara. Íslenskan ríkisborgararétt á ekki að gefa léttvægt. Það á að vera erfitt að öðlast ísenskan ríkisborgararétt og einungis að veita hann þeim sem sýnt hafi vilja og viðleitni til að verða íslenskir. Þetta misskilnings frjálslyndisprútt er að leysa hér upp samfélagið og það er bara rétt að byrja – sanniði til.

Af hverju þurfum við íslendingar alltaf að gera sömu mistökin og hafa áður verið gerð  af öðrum? Viljum við fá hér samfélag sem stendur saman af þjóðarbrotum sem ekki lyndir saman? Viljum við fá hér innflytjenda-gettó? Viljum við upplifa hér annarrar- og þriðjukynslóðar innflytjendur sem finna sig ekki í samfélaginu og lenda því upp á kant? Er ekki hægt að líta til nágrannalandanna og koma í veg fyrir að gera sömu mistökin og þau? Ég fullyrði það að ef að ekki verður tekið til í þessum málum, á skörulegan hátt og það fljótt, þá mun skapast hér grundvöllur fyrir öfgafulla þjóðernishyggju. Við sjáum þetta vera að gerast í nágrannalöndum okkar og þetta er hrein og klár afleiðing þessarar fáránlegu misskilnings-frjálslyndisstefnu í innflytjendamálum.

Með því að hleypa hér óheft inn í landið innflytjendum og sýna lindkind er kemur að lögbrotum gegn íslenskum lögum er ekki neinum greiði gerður – hvorki íslendingum né þeim sem hingað flytjast.


Þór Þórunnarson






« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn og aftur er ég sammála þér. Mér finnst ekkert að því að fara fram á sakavottorð þeirra sem flytja hingað. Fangageymslur hér eru fullar af austur evrópubúum. Ég vil vísa þessu fólki úr landi. Ég vil ekki borga fangavistina þeirra hér. Því miður er það svo að það er ekki rjóminn sem kemur hingað til lands. Hingað sækir fólk með dóma á bakinu í von um skjótfengin gróða.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband