Til Amsterdam með félögunum á kostnað skattborgaranna.
22.12.2007 | 14:17
Ég var að lesa frétt í 24 stundum um ofbeldismann sem úrskurðaður hefur verið ósakhæfur sem fékk frá Tryggingarstofnun 600 þúsund krónur og ákvað að nota þær í að bjóða félögunum með sér til Amsterdam. Annars gekk fréttin út á það að móðir mannsins lýsti áhyggjum sínum yfir því að engin úrræði væru fyrir þennan ólánsmann í kerfinu. Nú verð ég að staldra aðeins við og spyrja nokkurra spurninga.
1. Þessi ólánsmaður hefur sannanlega framið ofbeldisglæpi en fær samt að ganga um frjáls til að fremja aðra glæpi hvaða réttlæti er það?
2. Ef að maður er dæmdur ósakhæfur vegna geðveiki á þá ekki að sjá til þess að viðunandi úrræði séu til staðar fyrir slíka einstaklinga þannig að þeir fari sjálfum sér ekki né öðrum að voða?
3. Á ekki að refsa mönnum fyrir ofbeldi sama hvort þeir eru heilir eða veikir á geði? (Hver er svo sem fullkomlega heill á geði sem fremur ofbeldisglæp?)
4. Er það að gefa geðsjúkum dópista sem er á götunni 600 þúsund krónur einhver raunveruleg hjálp?
5. Er það okkar hinna yfirleitt að hjálpa svona einstaklingum?
Ég held að þessi frétt sýni svo ekki verði um villst að samfélagið er ráðþrota þegar kemur að þessum einstaklingi og hans líkum, væntanlega vegna þess að umræðu um úrræði skortir, m.a. svör við þessum spurningum. Ég ætla að svara þeim á eftirfarandi hátt og vonast til að lesendur svari þeim svo fyrir sig og vonandi verður það til þess að við skattgreiðendur þurfum aldrei að lesa um það framar að peningum okkar sé sóað á jafn fáránlegan hátt og mátti lesa í þessari frétt.
1. Sá sem brýtur gegn lögunum og samborgurum, sama hvort sá aðili er sakæfur dæmdur eður ei, á ekki frjáls maður að vera svo lengi sem aðilinn er líklegur til að brjóta af sér á ný og beita ofbeldi.
2. Til að skapa fælingarmátt gegn afbrotum höfum við komið á refsilöggjöf sem kveður á um frelsissviptingu til handa þeim sem fremja ofbeldisglæpi. Þessu er ekki síst komið á til að vernda borgarana gegn ofbeldismönnum. Menn eru dæmdir til tukthúsvistar brjóti menn alvarlega af sér að mati dómstóla. Séu menn ósakhæfir dæmdir skulu menn dæmdir til meðferðar í óákveðinn tíma samkvæmt íslenskum lögum þar til menn, að mati lækna, eru hæfir til að vera úti í samfélaginu.
3. Mér finnst það réttlætismál að ósakhæfum mönnum skuli refsað þar sem sannað þykir að þeir hafi beitt ofbeldi það eitt að dæma menn til meðferðar er ekki nóg. Eitt skal yfir alla ganga; brjóti menn lög skal mönnum refsað sama um hvern verið sé að ræða. Síðan er hægt að ræða lengi um það hvort raunveruleg meðferðarúrræði séu til staðar fyrir ósakhæfa einstaklinga. Ég er nokkuð viss um að svo sé ekki í öllum tilfellum og hvað þá? Á að þvinga þá einstaklinga til að vera tilraunarottur fyrir hin og þessi lyf? Á að geyma þá á geðsjúkrahúsum í þeirri von að þeir lagist eða að læknisfræðin komi upp með úrræði? Eða eiga þeir að taka út sína refsingu eins og aðrir og eftir það fá geðlæknismeðferð eins og aðrir geðsjúkir sem ekki hafa brotið af sér? Ég segi já við því.
4. Nei! Það að gefa geðsjúkum dópista á götunni 600 þúsund krónur er glapræði og engan vegin til þess að hjálpa honum á nokkurn hátt þvert á móti. Nær hefði verið að vista hann á geðsjúkrahúsi fyrir þennan pening eða veita honum pláss á sambýli.
5. Ég vil svara þessu játandi en það verður að vera raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar. Mér finnst það vera stór galli í öryrkjakerfi okkar að menn geti lagst á spenann og fengið bætur og fests þar. Það á að vera hlutverk samfélagsins að hjálpa mönnum á fætur en ekki að halda mönnum uppi. Það bíður upp á að menn misnoti kerfið og er letjandi fyrir einstaklingana að standa á eigin fótum. Vilji menn ekki sýna viðleitni í þá átt að fara aftur út í samfélagið og sjá sjálfir fyrir sér þá á það ekki að vera mitt hlutverk að sjá fyrir slíku fólki.
Jæja ég hef þá sagt mína skoðun á viðkvæmu máli. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál því að klárlega eru þau úrræði sem boðið er upp á í ólestri og virka hreinlega ekki. Þetta snertir svo víðara samhengi eins og öryrkja almennt og almannatryggingakerfið. Það sem ég vil segja að lokum er þetta: við eigum að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda en við eigum ekki að þurfa að halda uppi þeim sem vilja á hjálp að halda. Því það er ekkert til sem er ókeypis aðeins eitthvað sem aðrir borga fyrir.
Þór Þórunnarson
Óttast hvað sonur minn gerir næst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já blessuð Ester. Það er svo bara spurning um hvað beri að gera. Ég veit að þetta er ekki auðleyst mál en það þarf bara að líta á hlutina blákalt og viðurkenna þá staðreynd að allt of margir komast upp með að liggja upp á okkur hinum. Það þarf að koma í veg fyrir það því sjálft velferðarkerfið er undir. Ef að kerfið er misnotað eru það rök í sjálfu sér til að afnema það og þá bitnar það á þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda og það er ég viss um að við viljum ekki - þess vegna verður að koma í veg fyrir þessa misnotkun.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 28.12.2007 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.