Um Evru og Evrópusambandið

 

Jæja þá er best að tjá sig um þá fullyrðingu margra að upptaka Evrugjaldmiðilsins á Íslandi geti einungis átt sér stað samfara inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Ég verð að segja að aldrei hef ég heyrt nein haldbær rök fyrir þessu samhengi - af hverju? - Spyr sá sem ekki veit. Ég ætla hér, hins vegar, að telja upp nokkrar ástæður fyrir því að fullkomlega eðlilegt sé að taka upp Evru á Íslandi án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið:


  1. Það er í fyrsta lagi staðreynd að nokkur ríki, t.a.m. Monako, Andorra og Vatíkanið nota Evru án þess að vera í Evrópusambandinu.

  2. Í öðru lagi er það okkur í sjálfs vald sett, bæði sem einstaklingar og sem þjóð, með hvaða gjaldmiðil við verslum; við gætum notað kríubein ef að við kysum svo. Það getur enginn bannað okkur að nota Evru eða nokkurn annan gjaldmiðil - málið er bara svo einfalt. Tæknileg útlistun á því hvernig hægt væri að skipta frá íslensku Krónunni í Evru er ekki hlutverk þessara skrifa en ég fullyrði að það er hægt án mikilla vandkvæða.

  3. Í þriðja lagi þá erum við í efnahagsbandalagi við Evrópusambandið (EEA) í gegn um EFTA og því full rök fyrir því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil á sameiginlegu efnahagssvæði.

  4. Heimsvæðing (globalisering); við búum við aukin alheimsviðskipti og smækkandi heim. Til langs tíma stefnir allt í einn gjaldmiðil, sem er, þegar grannt er skoðað, eðlilegt og auðveldar viðskipti til muna. Ef að menn setjast niður og hugsa málið í gegn sjá menn að í dag er sameiginlegur gjaldmiðill notaður þegar lönd eiga með sér viðskipti, hvort heldur lönd innan sama efnahagsbandalags eður ei; alþjóðaviðskipti með olíu t.d. höndlast með dollar – engum dettur í hug að fullyrða að íslendingar geti ekki greitt fyrir olíu með dollar vegna þess að íslendingar eru ekki í Bandaríkjunum. Þannig að ef að við getum skammlaust notað Evru eða Dollar í milliríkjaviðskiptum án þess að vera í þessum bandalögum mælir EKKERT á móti því að við getur notað þessa gjaldmiðla einnig í innanríkisviðskiptum án þess að vera í þessum bandalögum


Þetta eru örfá rök sem sterklega benda til þess að á Íslandi sé vel hægt og jafnvel eðlilegt og rökrétt að versla með Evru án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið, hvað þá meira að segja, þurfa að taka afstöðu til Evrópusambandsins.

Stundum hefur mér fundist sem að þeir aðilar, sem halda því fram að ekki sé hægt að versla hér með Evru án þess að ganga í Evrópusambandið, slái þessu fram til þess eins að eyða umræðunni, svona eins og að þurfa ekki að verja sína afstöðu. Það er bara sagt, vitandi það að meirihluti þjóðarinnar er mótfallin inngöngu í Evrópusambandið: “Til að taka upp Evru þarf að ganga í Evrópusambandið!” og þar með þarf ekki að ræða það meir. Upphrópunarsleggjudómur til að afvegaleiða umræðuna og slá ryki í augu fólks. Staðreyndin er, hins vegar sú, að það þarf EKKI að ganga í Evrópusambandið til að versla hér með Evru eða að nota Evru í milliríkjaviðskiptum, eins og ég hef hér fært rök fyrir. Spurningin um inngöngu í Evrópusambandið er því algerlega allt annað mál og ber að ræða sérstaklega. Það er því fullkomlega eðlilegt, málefnalegt og sjálfsagt að hafa þá afstöðu t.d. að vilja ekki ganga í Evrópusambandið en samt taka hér upp Evru sem gjaldmiðil.

Og þá, lítillega, að spurningunni um það hvort Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið. Lítum á nokkrar fullyrðingar sem oft eru hafðar uppi þegar umræðuna ber á góma:

Staðreyndin er sú að við erum í efnahagsbandalagi við Evrópusambandið og þurfum þess vegna að aðlaga okkur að Evrópusambandinu og taka hér upp allar reglur, lög og reglugerðir sem Evrópusambandið setur varðandi markaði hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margir hafa bent á að eins og staðan er í dag þurfum við að beygja okkur í öllu undir ákvarðanir Evrópusambandsins en höfum nánast enga möguleika til að hafa áhrif á hvaða ákvarðanir séu teknar – þetta eru vissulega rök fyrir því að betra sé að vera innan Evrópusambandsins en utan.

Full aðild að Evrópusambandinu veitir, ekki bara áhrif og atkvæðarétt, heldur aukin rétt og tækifæri, t.a.m. til náms og styrkja.

  1. Að ganga í Evrópusambandið er að afsala sér einhverju af sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar.
    Já vissulega, en de facto er að það höfum við þegar gert það með inngöngu í EFTA og EEA samningnum við Evrópusambandið.
  2. Íslendingar missa yfirráðaréttinn yfir auðlindum Íslands ef að við göngum í Efnahagsbandalagið t.d. sjávarafla og jarðvarma.
    Satt best að segja er það liðin tíð að fiskistofnarnir við íslandsmið tilheyri þjóðinni allri og má það mig einu gilda sem almenns borgara þessa lands hvort að gróði fiskveiðanna fer í vasa íslendings eða útlendings. Ég er sannfærður um það að, segjum að t.d. Portúgali ætti hér kvóta í stað Íslendings, þá kæmi það út á eitt fyrir það fólk sem hefur atvinnu sína af fiskveiðum og vinnslu. Íslendingurinn reynir að skera niður hjá sér og hagræða, er jafn nískur eða örlátur við starfsfólk sitt og Portúgalinn. Hver á fyrirtækið Granda og hve stóran hlut, Íslendingur eða ekki, kemur á sama stað niður fyrir mig og allan almenning.
    Annað mál gildir um jarðvarma og raforkuframleiðslu. Þessar auðlindir eru að stórum hluta til í almannaeigu. Hér eru þó blikur á lofti og margt í því sambandi sem að við þurfum að aðlaga okkur að vegna EEA samningsins og tilskipanna Evrópusambandsins. Við þurfum að einkavæða á mörgum sviðum og aðskilja dreifiveitur frá framleiðslu. Í rauninni myndum við þurfa að beygja okkur undir einkavæðingarkröfu raforkuframleiðslunnar ef að hún kæmi frá Evrópusambandinu. Menn tala um vatnsréttindi og hverjir eigi þau. Menn tala um hverjir eigi hálendi Íslands. Ég hef ekkert á móti því að land, jarðvarmi, fallvötn, strandir, fiskistofnar, hálendið og vatnsból séu í almennings eigu Íslendinga, en ef að einkaeignarétti verður komið á þessu þá er mér alveg sama hvort það er Jón Ásgeir eða Richard Branson sem eignast þetta. Spurningin um yfirráðarétt auðlinda Íslands er því ekki endilega spurningin um Evrópusambandið eða ekki, heldur jafnframt EFTA eða ekki og um einkavæðingu eða ekki.

  3. Valdið fer frá fólkinu, allt drukknar í skrifræði og fáir eða nokkrir hafa raunverulega yfirsýn yfir það sem er að gerast.
    Hérna eru sterkustu rökin sem ég sé gegn því að ganga í Evrópusambandið. Það get ég hreinlega vitnað fyrstu hendi. Ég fór einu sinni í námsferð til Brussel þegar ég var í námi til að kynnast innviðum Evrópusambandsins og hvílíkt skrifræði. Það er veruleg hætta á því að embættismannakerfið sé hreinlega of valdamikið og of þungt. Kostnaðurinn er gífurlegur og Evrópuþingið er of langt frá fólkinu og nánast ómögulegt að hafa eitthvert aðhald.

  4. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins.
    Hagfræðilega og stjórnsýslulega er Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins fáránleg svo að það sé sagt hreint út. Í stuttu máli gengur hún út á styrki til handa bændum, bæði í formi niðurgreiðslna sem og sölutrygginga á tilteknu magni framleiðslunnar. Að auki eru alls kyns ákvæði varðandi framleiðslustýringu t.a.m. ef að sambandið vill draga úr framleiðslu á einhverri matvælategund þá fá bændur borgað fyrir hvern hektara lands sem ekki framleiðir þessa tilteknu matvælategund. Þetta ásamt því að Evrópusambandið greiðir landeigendum fyrir að rækta skóg á landareignum sínum gerir það t.d. að verkum að ríkasta manneskja Bretlandseyja, drottningin sjálf, er stærsti styrkþegi landbúnaðarstyrkja í Evrópusambandinu. Taka verður þó tillit til þess að landbúnaðarstefnunni var komið á í kjölfar síðari heimstyrjaldar til að tryggja næga matvælaframleiðslu innan Evrópu og koma í veg fyrir hungursneið, sem og þess að nýjar þjóðir Evrópusambandsins njóta ekki þessara styrkja á sama hátt og þær eldri. Sömuleiðis verður við að líta til þess að mikill vilji er innan sambandsins að breyta landbúnaðarstefnunni og láta markaðinn stýra á mun meiri hátt en nú er. Það er aftur á móti stór spurning hvort raunverulega sé hægt að breyta þessu og enn stærri spurning hversu hratt það gæti gerst. Hér eru þó innifalin tvö veigamikil atriði sem ber að taka tillit til þegar hugsanleg aðild Íslands er skoðuð. Í fyrsta lagi er nú kominn vísir að lagskiptingu innan sambandsins (sumar þjóðir njóta hærri styrkja en aðrar) og í öðru lagi; þeir styrkir sem þó enn bjóðast myndu vel nýtast íslenskum bændum þar sem styrkir til jaðarbyggða eru talsverðir.

  5. Valdahlutföll.
    Það er ákveðin skekkja þegar kemur að vægi þjóða innan Evrópusambandsins. Sumar þjóðir eru valdameiri en aðrar og er það eðlilegt í ljósi stærða þeirra. Sumar þjóðir hafa þó óðeðlilega mikið vald miðað við stærð sína a.m.k. að áliti margra. Þetta gæti verið gott fyrir litla þjóð eins og íslendinga en vont ef að t.a.m. atkvæðavægi á aðildarþjóða á Evrópuþinginu réðist fyrst og fremst af fólksfjölda viðkomandi þjóðar eins og háværar raddir eru um innan sambandsins. Það er líka varhugavert að upp sé kominn vísir að “gömlu” þjóðunum og “nýju” þjóðunum, sem hafa mismunandi réttindi innan sambandsins.


Hér hefur verið farið yfir nokkur rök, með og á móti aðild að Evrópusambandinu, og auðvitað ekki hægt að segja að aðild væri bara til bóta eða bara til vansa. Þetta er margslungið mál og ber að fara yfir það af yfirvegun. Persónulega vildi ég gjarna sjá Ísland sem algerlega sjálfstæða þjóð og það yrði þá að ganga úr EFTA. Ég sé fyrir mér að taka upp viðræður um fríverslun beint við Evrópusambandið í stað þess að gera það í gegnum EFTA, jafnframt því að leggja meiri áherslu á viðræður við NAFTA, Kína og fleiri aðila. Ég held að við ættum að geta náð fram ásættanlegum fríverslunarsamningum við Evrópusambandið án þess að þurfa að gangast undir allt það regluverk sem að EEA hefur í för með sér. Þannig að málið fyrir mér er þetta: Annað hvort raunverulegt sjálfstæði og ganga þess vegna úr EFTA og rifta efahagssamningnum við Evrópusambandið, eða hreinlega að ganga í Evrópusambandið. Ég er meira á því að viðhalda sjálfstæðinu. Ég held að Íslendingar myndu hagnast á því sem og heimurinn allur að hafa hérna litla eyju á miðju Atlantshafinu sem er sjálfstæð og utan bandalaga; rétt eins og Sviss er sjálfstæð eyja í miðri Evrópu.

 

Það góða í þessu er samt það, eins og ég sagði í upphafi, að spurningin um upptöku Evru er ekki spurningin um inngöngu í Evrópusambandið.

 

Þór Þórunnarson 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband