Stöndum vörð um heilbrigðiskerfið - það gerir það ekki sjálft - það er ekki sjálfsagt og það kemur okkur öllum við.

Aðalástæðan fyrir því að borga skatta er að halda uppi velferðarkerfi. Það er ekkert til sem er ókeypis – aðeins eitthvað sem aðrir borga fyrir. Við þurfum því öll að borga fyrir að halda uppi heilbrigðisþjónustu, mennta kynslóðirnar, annast aldraða og aðra sem ekki eru vinnufærir.

Ég ætla ekki hér að skilgreina nákvæmlega hvaða þjónusta skal vera innan velferðarkerfisins en ætla að einbeita mér í þessum pistli að heilbrigðisþjónustunni; sem ég fullyrði að sé sú þjónusta sem hvað mest sátt er um að skuli vera á vegum ríkisins - handa öllum, óháð efnahag og sú besta sem völ er á á hverjum tíma.

 

Ástæða þessara skrifa er sú að ég hef undanfarið fylgst með fréttum af “hugsanlegum” niðurskurði innan heilsugæslunnar. Ég hef og séð það og heyrt að mikill halli er á rekstri heilsugæslunnar. Sömuleiðis hef ég vitnað að verið sé að “spara” innan heilsugæslunnar og að verulegur skortur sé á heilbrigðisstarfsfólki og plássleysi sé víða mikið, bæði hvað varðar sjúklinga og starfsfólk. Þetta hef ég sömuleiðis vitnað persónulega þegar ég nýverið hef þurft að nýta mér þjónustu heilbrigðiskerfisins. Það virðist því vera þannig, á Íslandi í dag, að hvarvetna innan heilbrigðiskerfisins sé verulega skorið við nögl á nánast öllum sviðum.

 

Við höfum státað af því íslendingar að búa við öflugt og gott heilbrigðiskerfi sem er öllum, sem á þurfa að halda, aðgengilegt – ég held að nú séu þar brigður á.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að heilbrigðiskerfi okkar í dag sé EKKI eins gott og það gæti verið. Það skortir starfsfólk, það skortir pláss og umfram allt það skortir fjármagn. Afleiðingin er ofureinfaldlega sú að heilbrigðisþjónustan, sem slík, er miður góð - því miður. Langir biðlistar, sjúklingar liggja á göngum spítalanna, starfsfólk sem er útkeyrt og aðstaða öll þröng og hreint út sagt léleg oft á tíðum er það sem einkennir hið íslenska heilbrigðiskerfi á vorum dögum.

 

Nú verð ég að segja að ég hef glaður borgað mína skatta, hingað til, vegna þess að ég hef talið mig vita að til baka fengi ég góða heilbrigðisþjónustu, þegar og ef að ég og mínir þyrftu á að halda. Ég er líka þannig gerðar að mér getur ekki liðið vel vitandi af öðu fólki sem líður illa. Þannig er það af hreinni eigingirni og í eigin þágu sem að ég hef glaður tekið þátt í því að halda uppi heilbrigðiskerfi fyrir aðra. Það sem er að slá mig núna, hins vegar, er það að samfara fréttum af talsverðum tekjuafgangi ríkissjóðs og töluverðum summum af sölu ríkiseigna, sem liggja inn á bankabók, eru fréttir af fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Það er eins og það sé stefna að spara í heilbrigðiskerfinu – bara sparnaðarins vegna.

Ég get skilið að það þurfi að spara séu engir peningar til en ég tel fráleitt að spara þegar til eru peningar og þörf er á auknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins. Það er eitthvað að og mig grunar að pólitískt sé verið að svelta heilbrigðiskerfið með óhugnað einkavæðingar og tvíkerfis að markmiði – það ætla ég þó ekki að fullyrða en minnist á þennan grun minn hér svo að lesendur geti sjálfir tekið til þess afstöðu.

 

Ég krefst þess að sett verði tafarlaust aukið fé í heilbrigðisþjónustuna.

Ég krefst þess að laun heilbrigðisstarfsfólks  séu hækkuð að raungildi þannig að vandalaust muni vera að manna þær stöður sem til þarf að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi.

Ég krefst þess að byggt verði, svo að leguplássum fjölgi og biðlistar minnki.

Ég krefst þess að hið íslenska heilbrigðiskerfi verði eitt það besta sem völ er á og ég krefst þess að það verði einungis fjármagnað með sköttum.

 

Ég hef vitnað það á minni ævi að það er mun verra að fara á bráðamóttökuna nú en þegar ég var yngri. Á biðstofunni er veggspjald sem biður gesti að sýna biðlund vegna langrar biðar – þetta var ekki þannig - ég fullyrði það. Þjónustan hefur með öðrum orðum versnað – ekki batnað þrátt fyrir almennar framfarir innan læknisfræðinnar og aukna almenna velsæld. Hvernig má það vera þegar við sem þjóð, sem erum orðin efnaðri, höfum yfir að ráða verri þjónustu í dag en fyrir þrjátíu árum? Rökrétt væri að samfara bættum efnahag þjóðarinnar hefði heilbrigðisþjónustan batnað – ekki versnað. Ég hef leitt að því líkum, í þessum pistli, að til séu fjármunir til að setja í heilbrigðiskerfið – af hverju er það ekki gert?

 

Það er komin tími til að við stöndum saman og krefjumst þess að heilbrigðiskerfi okkar íslendinga verði bætt og það tafarlaust. Við skuldum það sjálfum okkur, við skuldum það afkomendum okkar og við skuldum það, ekki síst, áum okkar, sem börðust fyrir því með tárum svita og blóði að koma því á.

 

Gott heilbrigðiskerfi er EKKI  sjálfsagt eða sjálfgefið. Það ver sig ekki sjálft gegn pólitískum niðurskurði. Það er komin tími til að við spyrjum okkur þeirrar spurningar: Viljum við gott ríkisrekið heilbrigðiskerfi sem allir hafa aðgang að, þegar þörf krefur, óháð efnahag?

Ef að svarið er já, og það er það hjá mér, skulum við krefjast þess að tafarlaust verði sett aukið fé í kerfið, því að oft var þörf en nú er nauðsyn.

 

Þór Þórunnarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góð grein hér. Skoðaðu www.fjarlog.is og sjáðu í hvaða vitleysu fjármunum samfélagsins er veitt. Ekki minnkar gremjan við það!

Haukur Nikulásson, 12.12.2007 kl. 09:03

2 identicon

Það má bæta við að kostnaður notenda heilbrigðiskerfisins hefur stóraukist undanfarin ár. Margir eru á biðlistum vegna manneklu og plássleysis.Stjórnvöld hafa brugðist þeirri skyldu sinni að byggja hjúkrunarheimili og því eru aldraðir í plássum á sjúkrahúsum sem eru allt of dýr og ætluð sjúklingum. En það er ekki nóg að byggja, greiða þarf mannsæmandi laun til að fá fólk til starfa. Langvarandi mannekla fælir marga frá störfum. Í dag eru á 6. hundrað hjúkrunarfr. í öðrum störfum, jafnvel eru þeir stöðumælaverðir,vinna á kassa í rúmfatalagernum og fl. Segir allt sem þarf.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 09:05

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já er það ekki merkilegt að samfara auknum kostnaði notenda kerfisins versnar þjónustan?

Þór Ludwig Stiefel TORA, 12.12.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband