Hefst þá umkvörtunarkórinn.
11.3.2010 | 20:06
Ég hef verið að velta fyrir mér þessu, þegar íslendingar eru að mótmæla því sem kallað er seinagangur ríkisstjórnarinnar. Menn tala um að ekkert sé gert og að hér sé ein alvarlegasta kreppa sem Ísland hefur upplifað. Hverju eru menn eiginlega að mótmæla?
Vandamál íslendinga er offita ekki það að menn séu að drepast úr sulti. Menn kvarta yfir því að bensínverð sé svo hátt og menn kvarta yfir því að afborganir á kaupleigubílnum séu svo háar en að ferðast bara með strætó, dettur ekki nokkrum manni í hug. Það er ekki að sjá að færri bílar séu fyrir utan líkamsræktarstöðvarnar ef að menn kvarta yfir peningaleysi þá ættu menn að skokka á líkamsræktarstöðina og heim aftur, það kostar ekki neitt og lýsið lekur af. Nei, á Íslandi aka menn á líkamsræktarstöðina til að skokka þar á bretti eða hjóla á kyrrstæðu hjóli og kvarta yfir offitu og peningaleysi.
Menn kvarta yfir því að þeir komist ekki til útlanda því gengið sé svo lágt!
Bent er á gífurlegar afskriftir helstu útrásarsukkaranna og menn væla um dýrtíð og efnahagslega óáran. Menn eru að væla, ekki af því að þeir hafi það svo slæmt, heldur vegna þess að einhverjir aðrir hafa það betra og vegna þess að þeir höfðu það sjálfir betra en þeir hafa það nú. Þessar eilífu kvartanir, sem ekki er hægt að komast hjá að heyra á degi hverjum, eru öfundsýkisvæl.
Þessi kvörtunarkór, virðist mér, hæstur hjá þeim sem hafa það gott. Þeir væla hæst sem eiga fína síma, flottar tölvur, smart föt, góða bíla og rúmgott húsnæði vegna þess að þeir þurfa að skera aðeins niður við sig í neyslu.
Það er ekki að sjá að einkabílaumferð hafi minnkað á götum höfuðborgarinnar. Þúsund manns urðu fyrir töfum vegna verkfalls flugvirkja um daginn - þúsund manns á faraldsfæti, ekki á sumarleyfistíma og það á krepputíma? Flugumferðastjórar vilja launahækkun og eru þeir þó langt í frá launalágir miðað við flesta á vinnumarkaði hér á landi. Fjármálaráðherra fullyrðir að nýliðin jólaverslunin hafi verið með eindæmum góð. Ungmenni tala um ljósabekkjafíkn. Þetta hljómar í mín eyru eins og lúxusvandamál - ekki vandamál fólks er skortir fé til nauðþurfta.
Eru menn að mótmæla og kvarta vegna þess að þeir hafi það svo slæmt, eða eru menn að mótmæla og kvarta vegna þess að þeir hafa það verr nú en áður?
Svari nú hver fyrir sig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:26 | Facebook
Athugasemdir
Ég get svarað fyrir sjálfan mig hvers vegna ég mótmæli. Ég mótmæli vegna sambandsleysis ráðamanna við almenning. Ég mótmæli því að komið sé fram mismunandi við fólk eftir stærð veskis. Ég mótmæli vanvirðingu við íslenska stjórnarskrá, lög og siðferði. En ég mótmæli ekki vegna eigin stöðu, ég mótmæli vegna hugsjóna.
Axel Þór Kolbeinsson, 12.3.2010 kl. 09:01
Ég prófaði að hjóla í líkamsræktina og árangurinn varð sá að ég nennti ekki lengur að fara í líkamsrækt.
Offari, 12.3.2010 kl. 14:20
Já Axel, ég mótmæli einnig, sérstaklega því sem þú nefnir. En ég hef mótmælt mismunun, sambandsleysi ráðamanna við almenning og vanvirðingu við íslenska stjórnarskrá, lög og siðferði, frá því ég fór að vakna til meðvitundar og hafa áhuga á umhverfi mínu og stjórnmálum; það hefur ekkert að gera með þessa svokölluðu kreppu. Ég, eins og þú, berst fyrir hugsjónum - ekki fyrir betri bíl, stærra húsi, eldra viskí og yngri konum.
Já Offari, það er hið besta mál að aka á bíl í ræktina til þess eins að setjast þar á reiðhjól sem ekki færist úr stað - en menn eiga ekki að kvarta yfir peningaleysi hafi menn efni á slíku. Það að aka og eiga bíl, kostar pening, það að fara í líkamsrækt, kostar pening og hvorugt er nauðsynlegt þó það þyki þægilegt og fínt.
P.S Offari, hvernig væri að hjóla bara í líkamsræktina og aftur heim, en vera ekkert að fara í líkamsræktarstöðina?
Þór Ludwig Stiefel TORA, 12.3.2010 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.