Einkaeign eða samfélagseign? Það er spurningin.
19.2.2010 | 16:54
Við erum komin á það stig mannkynið, að við verðum að fara að spyrja okkur ákveðinna grundvallaspurninga. Ég á við spurninga er varða rétt manna til lífs, rétt manna til auðs, rétt manna til að eiga og ráða yfir auðlindum. Þessara spurninga hefur verið spurt áður og kristallast þær í þær andstæðu fylkingar sem kenndar hafa verið við vinstri og hægri. Undanfarna tvo áratugi, eða frá falli kommúnistastjórna austur Evrópu, hefur lítið borið á umræðu um grundvallaratriði þessi og vanþroska einstaklingar hafa haldið því fram að hægristefna, svo kölluð frjálshyggja eða það sem Karl Marx kallaði kapítalisma hafi sannað yfirburða ágæti sitt yfir vinstri stefnu eða því sem kallað hefur verið sósíalismi eða sameignastefna.
Ég ætla ekki hér að fara út í strangar skilgreiningar á því hvað kalla beri kapítalisma og sósíalisma en læt nægja að segja hér að um sé að ræða andstæð sjónarmið á því hvernig best sé að fara með auðlindir jarðar. Þeir sem aðhyllast kapítalisma styðja þá skoðun, sem sett var meðal annars fram af heimspekingnum og hagfræðingnum Adam Smith, að best sé að fara með auðlindir jarðar þegar þær eru í einkaeigu. Einungis þegar menn eru drifnir áfram af eiginhagsmunasemi þá fari menn vel með auðlindir; einungis þá reyni menn að hámarka gróða og lágmarka kostnað og eyðslu. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun halda því þannig fram að ef að ekki sé um persónulegt eignarhald á auðlindum að ræða sé lítill sem enginn hvati að hámarka arð af auðlindum eða þá að fá sem mest út úr þeim takmörkuðu gæðum sem jörðin hefur upp á að bjóða.
Eftir að kommúnistastjórnir austur Evrópu féllu hafa margir tekið það sem sönnun þess að sameignaformið sé úrelt útópískt fyrirbæri og hið besta mögulega samfélagsform sé það sem hafi sem víðtækasta persónulega eignastýringu. Það eru sorglega fáir sem gera sér grein fyrir samhengi þeirrar frjálshyggjuflóðbylgju, sem riðið hefur yfir heimsbyggðina frá lokum kalda stríðsins, og afhyggju sameignarforms austur Evrópu. Það er, með öðrum orðum, orsakasamhengi milli afnáms kommúnisma austur Evrópu og einkavæðingarinnar í vestur Evrópu.
Það sem ég ætla með þessum skrifum er að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort samfélagi okkar sé betur borgið með áherslu á einkaeign eða sameign; eða svo notuð séu kunnugleg hugstök kapítalisma eða sósíalisma.
Um það verður ekki deilt að samfélagsform það sem kommúnistastjórnir austur Evrópu byggðu á hrundi vegna vanhæfni þess skipulags. Það má, aftur á móti, deila um það hvort þar hafi verið á ferðinni sósíalismi. Óneitanlega var um að ræða ríkisvæðingu og ríkiseinokun en þeir sem raunverulega þekkja til kennisetninga sósíalismans myndu ekki vilja skrifa upp á að þar hafi raunverulegur sósíalismi verið á ferð. Um þetta hefur verið ritað ítarlegar á öðrum vettvangi og ætla ég að láta nægja hér að segja að þar austur í Evrópu hafi menn lagt meiri áherslu á orðið alræði en orðið öreiganna og ákveðin valdaelíta notfært sér kennisetninguna til að komast til valda og viðhalda völdum sínum líkt og Georg Orwell lýsti svo snilldarlega í bók sinni Dýragarðinum.
En eftir stendur spurningin: Er persónulegt eignarhald auðlinda betra en samfélagslegt? Ég ætla ekki hér að tyggja á því hversu illa rekin kommúnistaríkin voru en er þessu svo miklu betur farið hér? Einkavæðingin er víðtækari en margan grunar við fyrstu sýn. Menn verða að átta sig á því að það eitt og sér að einkavæða er ekki nema hálf sagan sögð. Hin hliðin á peningnum er afskiptaleysi (e. deregulation) stjórnvalda af því hvað einkaaðilar gera með sínar eignir; menn eiga jú sínar eignir og eiga að fá að gera við þær það sem þeim sýnist, um það snýst það að eiga eitthvað og hafa yfir því yfirráðarétt. Þannig hefur frjálshyggjan leitt af sér einkavæðingu og afskiptaleysi stjórnvalda. Það hljóta að fara saman hugmyndirnar um yfirburði einkaeignarformsins og afnám regluverks ríkisins. Ef að eignum er betur borgið í höndum einstaklinganna þá er fáránlegt að ætla að sameiginlega sé gott að ákveða hvernig best sé að fara með þessar sömu eignir.
Við erum nú að upplifa afleiðingar þessarar stefnu í þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir landsbyggðina og kostað hefur samfélögin ríkin almenning meiri upphæðir en nokkur einstaklingur fær skilið. Kostnaðurinn við afskriftir og gjaldþrot einkabankanna lendir jú algerlega á almenningi - einkavæddur var gróðinn en ríkisvætt tapið. Við erum að tala um trilljónir bandaríkjadala af almannafé bara í Bandaríkjunum einum saman. Allir vita að kostnaður almennings hér á landi verðu gífurlegur og sömu sögu er að segja alls staðar annars staðar.
Það er því tímabært að spyrja þeirrar grundvallarspurningar enn á ný: Er auðlindum jarðarinnar betur komið í höndum einstaklinganna en samfélaganna? Er einkaeignarformið betra en sameignarformið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Facebook
Athugasemdir
Hver er þín skoðun?
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 20.2.2010 kl. 19:09
Ég hélt að það væri hægt að lesa það úr þessum skrifum að ég hef ekki mikla trú á að einkaeignaformið sé ásættanlegt og að "hin ósýnilega hönd" sem Adam Smith skrifaði um virkar í raun ekki.
Ég hef sannfæringu fyrir því að hin eina skynsamlega sé að fara með auðlindir jarðarinnar sem sameign jarðarbúa. Ég held því fram að okkur beri fyrst og fremst að hugsa út frá heildinni og það komi einstaklingunum svo til góða, en ekki öfugt eins og nú er fyrirkomulagið.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 21.2.2010 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.