Aðeins um þennan svokallaða “stöðugleikasáttmála”.

 Þegar ég var að alast upp, þá var það hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja kjör og kaupmátt. Það snertir mig ankannalega því að heyra talað um að þegar bankakerfið á Íslandi hrynur, og gengi íslensku krónunnar fellur um rúm eitt hundrað prósent, að þá taki verkalýðshreyfingin það að sér að koma hér á stöðugleika?!?

Þegar ég var að alast upp bjó Ísland við óðaverðbólgu. Oftast var ferlið þannig að verkalýðsforystan fór fram á launahækkanir og þegar að það náðist fram þá var gengið fellt. Þannig hækkaði allt: laun, sem og innflutningur. Þetta hentaði mörgum og gekk í áratugi eða allt þar til Þjóðarsáttarsamningarnir svo kölluðu komu til.

Eitt kenndi þetta mér og það var hversu bölvað það væri að búa við þessa íslensku krónu sem stjórnmálamenn (lesist: hagsmunaaðilar í sjávarútvegi) gátu fellt að vild.

En nú er öldin önnur og ég er nokkurn veginn búin að alast upp. Dæmið hefur nú snúist við og það sem áður var krafa um launahækkanir sem kölluðu á gengisfellingu sem kallaði á verðhækkanir á innflutningi er nú: Gengið er fallið, verðhækkun á innflutningi er staðreynd og þar með fleiri krónur til handa útflutningsgreinunum en verkalýðshreyfingin stendur að einhverjum stöðugleikasáttmála sem tryggir það að allt hækkar (lán til heimila, matvara o.s.frv.) nema laun hins vinnandi manns.

Öðruvísi mér áður brá.

Það sem þarf að gera og það er það eina sem getur “leiðrétt” þetta gengishrun íslensku krónunnar með tilheyrandi verðbólgu eru launahækkanir. Ef að heimilin í landinu eru að sligast undan því að lánin hafi hækkað og innflutt vara hafi hækkað þá er ekkert annað að gera en að hækka launin – af hverju í ósköpunum fer verkalýðshreyfingin ekki fram á það?

Það að verkalýðshreyfingin standi hér að svokölluðum stöðugleikasáttmála er í raun andstæða alls stöðugleika. Það getur aldrei stuðlað að stöðugleika að slíta í sundur laun og útgjöld, þvert á móti kallar slíkt á óstöðugleika, gjaldþrot heimila, landflótta og aðra óáran.

Nú liggur aðeins eitt fyrir og það er að hækka laun í íslenskum krónum svo að þau séu nokkurn veginn á pari við það sem var fyrir hrun. Ef að ég gat keypt mér kíló af innfluttu nautakjöti fyrir klukkustunda kaup fyrir hrun en get aðeins keypt mér hálft kíló í dag þá þarf að fjölga krónunum í launaumslagi mínu og það strax. Ef að lán mitt hefur hækkað vegna verðbólgu og gengisbreytinga þá þarf að hækka laun mitt til samræmis og það strax – það er stöðugleiki, allt annað er það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt

Sigrún Óskars, 6.1.2010 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband