Er krónan slæm?

Um gengismál

 

Nú er mikil umræða um krónuna og hvort rétt sé að halda henni sem gjaldmiðli eða skipta út fyrir annan. Ég ætla því hér í þessum pistli að varpa örlitlu ljósi á nokkur grundvallaratriði er varða gjaldmiðil yfirleitt og svo fara yfir það hvað hefur gerst undanfarið er varðar íslensku krónuna.

Ástæða þess að menn setja nú fram kröfu um að skipta út krónunni fyrir annan, og þá sterkari gjaldmiðil, er aðallega óstöðugleiki krónunnar. Menn benda á hversu veik (eða lítil) krónan sé sem gjaldmiðill í hinu stóra samhengi. Þetta eru mjög gild rök vegna þess hversu kostnaður sem af gengisflökti hlýst fyrir fyrirtæki er mikill; kostnaður sem alltaf á endanum er varpað yfir til neytenda og launþega. Það er því eðlilegt að byrja á því að spyrja sig: Hvers vegna flöktir krónan?

Þessu er því til að svara að tekin var ákvörðun um svokallað fljótandi gengi, en það þýðir að verð krónunnar átti að fá að ráðast á markaði, þ.e. af framboði og eftirspurn.

 

frambod_826102.gif

 

Myndin hér til hliðar sýnir hinn klassísku föll framboðs og eftirspurnar sem afleiður af verði og magni. Þetta módel gildir á öllum mörkuðum, sama hvað höndlað er, svo fremi markaðurinn sé nokkurn veginn frjáls; engu skiptir hvort talað er um markað fyrir hveiti, fisk, olíu eða einhvern ákveðinn gjaldmiðil, t.a.m. íslenska krónu.

Við sjáum á myndinni að því lægra sem verð er, því lægra er framboðið og þeim mun meiri eftirspurn og svo öfugt. Talað er um jafnvægisverð þegar verð er þannig að framboð svarar eftirspurninni.

Og þá til baka að krónunni og spurningunni um af hverju krónan flökti. Þegar talað er um gengissveiflur á gjaldmiðli er verið að tala um verðsveiflur. Það verður þó að gæta þess að verð á gjaldmiðli breytist ekki eitt og sér. Verð eins gjaldmiðils er mælt í öðrum gjaldmiðli sem sjálfur getur verið á flökti. Þetta er eðli þess sem kallað er fljótandi gengi og andstætt því sem áður var þegar allir gjaldmiðlar voru verðmældir í gulli. Jæja allt gott um það, en hvers vegna hækka og lækka gjaldmiðlar? Það gera þeir, rétt eins og aðrar vörur, vegna mismunandi eftirspurnar og/eða framboðs. Sem sagt: ef að aukning verður á eftirspurn eftir gjaldmiðli, t.d. íslenskri krónu, þá hækkar verð hennar á gjaldeyrismörkuðum. Sömuleiðis lækkar verð krónunnar ef að minnkandi eftirspurn er eftir henni. Hin hliðin á sama peningi er að ef að framboð eykst á íslenskri krónu á markaði þá fellur verð hennar en eykst hins vegar ef að framboð krónunnar minnkar. Þetta er lögmál markaðarins. Við getum því verið fullviss um að gengisflökt krónunnar er vegna einhverra þessara þátta: aukinnar eftirspurnar, minnkandi eftirspurnar, aukins framboðs eða minnkandi framboðs.

Þegar við erum komin með þessi grundvallaratriði á hreint erum við betur í stakk búin til að sjá hvað hefur verið að gerast með íslensku krónuna undanfarið og getum tekið einhverja vitræna afstöðu til þess hvort við eigum að hafa krónu sem gjaldmiðil á Íslandi eður ei.

Nú erum við búinn að sjá það að framboð og eftirspurn ræður verði (gengi) krónunnar. Við vitum að íslenska ríkið eitt getur prentað íslenska peningaseðla og þar með haft áhrif á framboðið. Þetta er ákveðið stjórntæki og nauðsynlegt að hafa í huga þegar verið er að ræða gjaldmiðlamál. Við getum, hins vegar, einnig haft áhrif á eftirspurnina og það með drastískum afleiðingum eins og ég mun sýna fram á.

Alveg frá því að tekin var upp flotgengisstefna með verðbólgumarkmiðum tók krónan að hækka í verði miðað við jafnaðarmyntkörfu (það er meðaltalsverð nokkurra erlendra mynta). Þessi hækkun getur bara stafað af aukinni eftirspurn eða minna framboði. Þar sem Seðlabankinn getur haft áhrif á framboðið með peningaprentun og að Seðlabanki hefur að markmiði að stuðla að stöðugu gegni verður að teljast líklegt að skýringar hækkunar sé að leita í aukinni eftirspurn.

Þegar kemur að íslenskri krónu, eins og flestum örðum gjaldmiðlum, eru það ákveðnir þættir sem verða til að auka eftirspurn. Fyrst er að nefna útflutning frá Íslandi. Hitt er aukin fjárfesting erlendra aðila á Íslandi. Það verður að segjast að hvort tveggja var um að ræða fram að hinu svonefnda bankahruni en aðallega þó munaði um stórauknar fjárfestingar. Það, að hér var um að ræða stórauknar fjárfestingar erlendra aðila, ætla ég að færa rök fyrir að séu meginástæða gengisóstöðugleika íslensku krónunnar og að í þeim þætti leynist hin mestu glappaskot íslenskrar hagstjórnar á síðari árum.

Fjárfestingar eru með tvennum hætti. Annarsvegar þegar erlendir aðilar kaupa hér fasteignir en hins vegar þegar þeir kaupa hér pappíra veri það hlutabréf eða verðbréf. Það var útgáfa íslenskra verðbréfa, oft nefnd jöklabréf, sem stórjók eftirspurn eftir íslenskri krónu sem leiddi til hækkunar hennar. Menn einblíndu á mikilvægi þess að nú væri að koma “erlent fjármagn” inn í landið og fannst það gott fyrir hagkerfið. Menn hugðu, hins vegar, ekki að því að með því væri verið að raska jafnvægisverði á gjaldmiðlinum.

 frambod2.gif

Þegar gefin voru út jöklabréf fyrir milljarða króna þá var verið að auka eftirspurn eftir íslenskum krónum sem því nemur. Þegar slíkt gerist þá verður þeyting á eftirspurnarkúrfunni eins og sést á myndinni hér til hliðar. Við sjáum að eftirspurnarkúrfan hefur færst til hægri sem sýnir aukna eftirspurn sem leiðir til hærra verðs. Það sem hér gerist einnig er að framboð eykst, en þessi aukning er ekki aukning á peningamagni í umferð, sem myndi sýna framboðskúrfuna færst til hægri líkt og eftirspurnarkúrfuna, heldur er þetta aukna framboð að sýna þær krónur sem fyrir eru í umferð fara úr landi -þ.e.a.s. hún sýnir innflutning. Vegna aukinnar eftirspurnar eftir krónu tóku markaðir að taka við krónum sem gjaldmiðli. Íslendingar þurftu nú ekki að skipta í t.a.m. dollara til að kaupa erlenda vöru heldur gátu greitt beint með íslenskum krónum. Þetta ásamt hlutfallslega lægra verði á erlendum vörum, vegna hækkandi gengis, kallar svo í kjölfarið á aukinn vöruskiptahalla við útlönd og þenslu; allt eitthvað sem við þekkjum mjög vel frá undanförnum árum.

Það sem síðan gerist er hið öfuga þegar útlendingar selja jöklabréfin. Þá stóreykst framboð á krónum og verðið lækkar. En þar með er ekki öll sagan sögð, því miður. Í millitíðinni hefur Seðlabankinn reynt að berjast gegn vöruskiptahalla og þenslu með því að hækka vexti. Þessi vaxtahækkun varð til þess að íslendingar fóru að taka erlend lán og enn jókst eftirspurn eftir krónum erlendis frá þar sem menn sáu hagnaðarvon í vaxtamuninum milli landa. Vaxtahækkun Seðlabankans jók því vandan fremur en að draga úr. Þegar svo er komið að útlendingar innleysa jöklabréfin sitja íslendingar eftir með miklar erlendar skuldir sem hækka hlutfallslega með lækkandi gengi, háa vexti og mikinn vöruskiptahalla. Eðlilega kalla menn slíkt efnahagslega óstjórn og krefjast úrlausnar. Spurningin er bara: Er ástandið eins og það er vegna slæmrar krónu eða slæmrar stjórnunar?

Er krónan slæm eða var rangt að hafa áhrif á eftirspurn eftir henni?

Dæmi nú hver fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Mitt mat, nei krónan er ekki vandamálið eins og margir fáfróðir segja, þetta er bara sama gamla sagan, þú verður að sníða þér stakk eftir vexti, krónan er fín.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 8.4.2009 kl. 14:49

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er svo erfitt að segja "það hefur enginn trú á Íslendingum lengur" og því gott að geta haft gjaldmiðilinn sem blóraböggul og segja "það hefur enginn trú á krónunni lengur". Að kenna krónunni um efnahagslegar ófarir er eins og að kæra riffil fyrir morð.

Haraldur Hansson, 8.4.2009 kl. 16:13

3 Smámynd: Offari

Ég tel krónuna saklausa. Það var ekki hún sem jók eftirspurnina það var heldur ekki hún sem minkaði eftirspurnina. Krónan er eins og bopparabolti sem skopar upp og niður. Eini gallinn er sá að nú er henni ekki leyft að ná botninum til að hún geti fengið spyrnu til að boppa upp aftur.

Það er léleg hagstjórn. Að banna að nota hana erlendis í viðskiptum við Ísland stöðvar eftirspurnina.

Offari, 8.4.2009 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband